Tékklisti fyrir taubleiur

Hvað þarf ég að eiga til þess að byrja að nota taubleiur?

Gott er að styðjast við eftirfarandi lista. Hann er þó einungis til viðmiðunar og magn getur verið mjög einstaklingsbundið.

Bleiur

Gott er að eiga 18-24 bleiur (í hverri stærð ef þær eru í stærðum). 
Magn taubleianna fer aðallega eftir því hversu oft maður þvær. Hægt er til að mynda að komast af með færri bleiur ef maður þvær oftar.

Bleiubuxur/cover

6-8 bleiubuxur fyrir nýbura og 4-6 fyrir eldri börn (ef nota á bleiubuxur)

Innlegg

Nauðsynlegt er að eiga að minnsta kosti jafn mörg innlegg og bleiur ef vasableiur eru notaðar, þ.e. 18-24. 
En gott er að eiga nokkur í viðbót til þess að bæta inn í bleiurnar ef þörf reynist á, sér í lagi þegar börnin eru orðin eldri. 
Um það bil 5 mjög rakadræg næturinnlegg ef um er að ræða börn sem pissa mikið.

Bleiufata/PUL poki

Nauðsynlegt er að eiga eitthvað til þess að geyma bleiurnar í fyrir þvott, t.d. opna bleiufötu (t.d. plastdall) til þess að geyma notuðu bleiurnar í á meðan þær bíða eftir þvotti. 
Aðrir kjósa að nota stóran PUL poka til þess að minnka lykt í þvottahúsinu/baðherberginu í stað þess að nota fötu. Pokann er svo hægt að þvo um leið og bleiurnar, og hann er mjög fljótur að þorna. Einnig getur verið gott að nota PUL poka ofan í bleiufötu.

Festingar 

1-2 Snappi festingar (einungis nauðsynlegt fyrir þá sem ætla að nota gasbleiur, prefolds bleiur eða tilsniðnar bleiur sem þurfa festingar)

PUL pokar/litlir

Gott er að eiga 2 stykki (til þess að geta þvegið þá með bleiunum) ef maður er mikið á ferðinni, eða ef barnið er með taubleiur í dagvistun

Þvottastykki

Um það bil 20 þvottastykki eða meira

Einnota pappír/hríspappír/viscose pappír

Mörgum finnst það þægilegt og það auðveldar þvott. 
Pappírinn er yfirleitt seldur í 200 blaða pakkningum og endist þá í 200 bleiuskipti.

Hreinsiúði og bossakrem

Það getur verið þægilegt að eiga hreinsiúða, bæði fyrir morgunpissið sem getur verið lyktsterkt og fyrir bleiuskipti þegar maður er á ferðinni. 
Einnig er gott að eiga bossakrem sem nota má með taubleium ef þörf er á því.

Þvottaefni fyrir taubleiur

Notast þarf við þvottaefni sem eru án óæskilegra aukaefna.

PrintEmail